Stofnandi Wikileaks-vefjarins, Julian Assange, kom í dag í sendiráð Ekvador í London og óskaði eftir pólitísku hæli í landinu en í síðustu viku var heimilað að hann yrði framseldur frá Bretlandi til Svíþjóðar vegna ákæru þar í landi um kynferðisbrot.
Þetta hefur Assange staðfest í yfirlýsingu samkvæmt fréttveitunni AFP. Fram kemur í yfirlýsingunni að ósk hans hafi verið komið til utanríkisráðuneytis Ekvadors og hann væri þakklátur þarlendum yfirvöldum fyrir að taka hana til skoðunar.
Í fréttinni segir að Assange geti enn áfrýjað framsalsúrskurðinum til Mannréttindadómstóls Evrópu og hafa lögfræðingar hans frest til 28. júní til þess að taka ákvörðun um það hvort það verði gert.
Stjórnvöld í Ekvador hafa sagt að þeim beri skylda til þess að taka til skoðunar allar óskir um pólitískt hæli í landinu. Á meðan málið sé skoðað verður Assange í sendiráði Ekvador undir vernd ríkisstjórnar landsins.
Þá segir í fréttinni að stjórnvöld í Ekvador hafi óskað eftir áliti breskra, sænskra og bandarískra ráðamanna á málinu til þess að tryggja að farið verði að alþjóðalögum.
Forsaga málsins er sú að ríkisstjórn Ekvadors bauð Assange landvistarleyfi í landinu árið 2010.