Fjórum haldið í gíslingu í Toulouse

Maður sem segist vera meðlimur hryðjuverkasamtakanna al Qaeda hefur tekið fjórar manneskjur í gíslingu í banka í Toulouse, í suðvesturhluta Frakklands.

Að sögn lögreglunnar hefur maðurinn hleypt af einu skoti en á meðal gíslanna er yfirmaður í bankanum. Álitið er að um sé að ræða rán sem fór úrskeiðis. Maðurinn hefur krafist þess að fá að tala við þá meðlimi sérsveitar lögreglunnar sem skutu fjöldamorðingjann Mohamed Merah til bana. Merah myrti sjö manns, þar af þrjú börn, á átta dögum í mars. Hann var felldur eftir að lögreglan hafði setið um íbúð hans í 32 klukkustundir.

Nálægum götum hefur verið lokað og lögreglumenn sem sérhæfa sig í hryðjuverkarannsóknum hafa verið kallaðir til.

Að sögn fréttamanns BBC er bankinn í um 100 metra fjarlægð frá íbúð Merah.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert