Vassilis Rapanos, nýr fjármálaráðherra Grikklands, fer ekki vel af stað. Hann datt á hausinn á sínum fyrsta degi í embætti og þarf að fara í skurðaðgerð.
Ný ríkisstjórn Antonis Samaras tók við völdum í Grikklandi á miðvikudaginn, en hann er fjórði forsætisráðherrann í landinu á átta mánuðum. Ríkisstjórnarinnar bíða erfið verkefni og þá ekki síst fjármálaráðherrans, en ríkissjóður Grikklands er skuldum vafinn.
Rapanos féll fram fyrir sig á sínum fyrsta degi í embætti og var fluttur á sjúkrahús. Gera þarf aðgerð á auga hans. Hann mun því ekki geta mætt á sinn fyrsta þingfund sem ráðherra. Hann missir einnig af leik Þýskalands og Grikklands á EM.