Reyndi að réttlæta fjöldamorðin

Réttarhöldunum yfir norska fjöldamorðingjanum Anders Behring Breivik lauk í dag, ellefu mánuðum eftir að hann myrti 77 manns í Útey og Ósló. Breivik sagði þegar hann flutti lokaorðin í dag að árásirnar hefðu verið réttlætanlegar og krafðist þess að vera sýknaður. Dómur í málinu verður birtur þann 24. ágúst nk.

Ekki var bein útsending frá lokaorðum Breiviks og flestir ættingjar og vinir fórnarlamba hans yfirgáfu réttarsal 250 í Ósló áður en hann hóf upp raust sína. Ræða Breivik tók 45 mínútur og stærsti hluti ræðunnar var um nauðsyn árásanna en Breivik sagði þær hafa verið nauðsynlegar til að verja Noreg gegn fjölmenningu og innrás múslíma. Breivik, sem er 33 ára að aldri, segir að hann hafi verið að verja norsku þjóðina og Noreg með árásunum og því beri dómurum að sýkna hann.

Bar ekki skylda til að hlýða á Breivik

Þann 22. júlí í fyrra sprengdi Breivik bílsprengju fyrir utan stjórnarráðsbyggingar í Ósló og létust átta manns. Þaðan fór hann út í Útey þar sem hann skaut 69 manns til bana. Flest fórnarlamba hans í eyjunni voru unglingar. Yngsta fórnarlamb hans var nýorðið fjórtán ára. 

Christian Bjelland er einn þeirra sem gengu út úr réttarsalnum áður en Breivik tók til máls. Hann segir í samtali við norska sjónvarpið að Breivik hafi rétt á að tjá sig og þau hafi enga skyldu til að hlýða á hann.

Gagnrýndi Beðmál í borginni

Meðal þess sem Breivik gerði að umræðuefni í ræðu sinni var að söngvari af útlendu bergi brotinn skyldi syngja fyrir Noreg í Euróvision. Eins gagnrýndi hann bandaríska sjónvarpsþætti eins og Beðmál í borginni fyrir að hvetja konur til þess að stofna ekki fjölskyldur. 

Sagði hann dómarana fimm geta dæmt hann að vild en sagan muni sýna hvort þeir hafi dæmt mann sem reyndi að stöðva hið illa og bætti við að hann hefði framið illvirki til þess að stöðva enn meira illvirki.

Anders Behring Breivik yfirgefur réttarsalinn nú síðdegis.
Anders Behring Breivik yfirgefur réttarsalinn nú síðdegis. AFP
Ættingjar yfirgefa réttarsalinn
Ættingjar yfirgefa réttarsalinn AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka