Myndband af eldri konu sem er strítt miskunnarlaust um borð í skólarútu í Bandaríkjunum hefur farið eins og eldur í sinu á netinu undanfarna daga. Hafa safnast rúmar 40 milljónir króna til að borga fyrir afslappandi ferð þar sem hún getur jafnað sig á rauninni.
Um er að ræða 10 mínútna myndband sem sýnir 12-13 ára krakka hrella Karen Klein, 68 ára konu sem starfar sem gæslukona um borð í skólarútum í bænum Greece í New York-ríki. Hún reynir að hunsa illkvittnar athugasemdir krakkanna, sem kalla hana fávita og gera grín að þyngd hennar, hárgreiðslu og heyrnartæki sem hún ber. Þá segist einn ætla að kasta þvagi á útidyrahurð heimilis hennar. Á meðan hlæja hinir krakkarnir.
Einn nemandanna um borð í rútunni tók myndband af atvikinu og birti á netinu en sjálf kvartaði Klein ekki undan þeim við stjórnendur skólans þar sem hún starfar.
Vefsíðan indiegogo.com ákvað í kjölfarið að hefja söfnun fyrir Klein svo hún kæmist í frí til að jafnað sig og var markmiðið að safna um 600 þúsund krónum. Í gær námu framlögin aftur á móti tæpum 43 milljónum króna.
Í viðtali við sjónvarpsstöðina NBC sagði Klein að ungir nemendur hefðu áður strítt sér. „Þeir gátu verið mjög illgjarnir. Ég vil að drengjunum verði refsað en ég veit ekki nákvæmlega hvernig.“ Hún bætti við að allur stuðningurinn sem hún hefði fundið fyrir í kjölfarið hefði komið sér verulega á óvart. Hún hefði fengið falleg bréf, tölvupósta og skilaboð á Facebook.
Skólayfirvöld hafa sagt að þeim fjórum nemendum, sem höfðu sig hvað mest í frammi, verði refsað. Nöfn þeirra og símanúmerið voru birt á netinu fljótlega eftir að myndbandið varð vinsælt og að sögn lögreglunnar fékk einn þeirra um 700 hótanir. „Við erum að reyna að fá fólk til að hætta því, því það þjónar í raun engum tilgangi,“ sagði lögreglan og bætti við að þeir sem hótuðu drengjunum væru í raun að gerast sekir um það sama og þeir.