Uppfylla vopnasölusamninga við Sýrland

Putin, forseti Rússlands, ásamt herforingjum sést hér skoða rússneska flutningaþyrlu.
Putin, forseti Rússlands, ásamt herforingjum sést hér skoða rússneska flutningaþyrlu. AFP

Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir það af og frá að Rússar hafi sent  herþyrlur til stjórnvalda í Sýrlandi til að nota gegn uppreisnarmönnum.

Á þriðjudaginn bárust fréttir af rússnesku skipi sem var stöðvað utan ströndum Skotlands á leið sinni til Sýrlands og snúið við til Rússlands. Talið var að um borð væru rússneskar herþyrlur. Lavrov, utanríkisráðherra, hefur nú staðfest að þyrlur hafi verið um borð í skipinu. Það væru hins vegar gamlar þyrlur sem hefðu verið í viðgerð í Rússlandi.

Á heimasíðu rússneska utanríkisráðuneytisins kemur fram að Rússar ætli sér ekki að senda nein herskip til Sýrlands. Hins vegar séu í gildi umfangsmiklir vopnasölusamningar milli Rússlands og Sýrlands og stjórnvöld í Rússlandi ætli sér að standa við þá samninga. Lavrov segir Rússa þannig bundna til að senda vopn til Sýrlands en tekur það þó fram að rússnesku vopnin séu aðallega hugsuð til varnar og þá sérstaklega til að verjast loftárásum. Slíkum vopnum sé ekki hægt að beita gegn almennum borgurum í Sýrlandi, aðeins gegn utanaðkomandi ógnum.

Lavrov segir Rússa fara að alþjóðalögum

Sergey Lavrov segir á heimasíðu ráðuneytis síns að þyrlurnar þrjár, sem nefndar voru hér að framan, séu gamlar sovéskar þyrlur. Þær hafi verið í notkun í Sýrlandi síðan á Sovéttímanum en voru nýlega sendar til Rússlands þar sem þær voru gerðar upp samkvæmt samningum milli landanna frá 2008.

Utanríkisráðuneytið í Rússlandi harmar aðgerðir breska tryggingafélagsins The Standard Club sem felldi úr gildi tryggingar á flutningaskipinu sem stöðvað var undan ströndum Skotlands. Lavrov, utanríkisráðherra, segir að samkvæmt því sé ljóst að breskum tryggingafélögum sé ekki treystandi því þau séu aðeins handbendi Evrópusambandsins sem beitir Sýrland nú viðskiptaþvingunum.

Samkvæmt þessu geti hver sá sem eigi viðskipti við bresk félög átt von á inngripum frá utanaðkomandi aðilum þrátt fyrir að öll alþjóðalög séu uppfyllt. Lavrov segir Rússa uppfylla alla alþjóðlega skilmála Sameinuðu þjóðanna gagnvart Sýrlandi en þeir séu ekki bundnir af öðrum alþjóðastofnunum eins og ESB.

Sýrlendingar segjast ætla að gangast við plani Annan

Sergey Lavrov fundaði í dag með Wallid al-Muallem, utanríkisráðherra Sýrlands, og hvatti hann til að uppfylla aðgerðaráætlun Kofi Annan um málefni Sýrlands. Al-Muallem fullyrti við Lavrov að Sýrlandsstjórn myndi gangast við plani Annan.

Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir Rússa bundna við vopnasölusamninga við …
Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir Rússa bundna við vopnasölusamninga við Sýrlandsstjórn. AFP
Mótmælendur sjást hér brenna myndir af Assad, Putin og Lavrov. …
Mótmælendur sjást hér brenna myndir af Assad, Putin og Lavrov. Rússar eru gagnrýndir fyrir stuðning sinn við Sýrland. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert