Yfirvöld í Sádi-Arabíu skoða nú af fullri alvöru að borga uppreisnarmönnum í Sýrlandi laun fyrir að berjast gegn ríkisstjórn Assads forseta.
Sádi-Arabía og Katar hafa undanfarið sent vopn til uppreisnarmanna í Frelsisher Sýrlands. Talið er að vopnasendingarnar hafi nú þegar skilað árangri því frelsisherinn hefur styrkst nokkuð í sessi enda búinn öflugri vopnum. Vopnin eru flutt til Sýrlands um landamærin við Tyrkland.
Breska blaðið Guardian greinir frá þessu. Í frétt blaðsins segir jafnframt að Bandaríkin hafi tekið vel í hugmyndir arabaríkjanna um að greiða uppreisnarmönnunum fyrir aðgerðir gegn Assad.
Frelsisherinn hefur sett upp stjórnstöð í Tyrklandi með fullu samþykki og aðstoð tyrkneskra stjórnvalda. Þaðan er aðgerðum stjórnað en talið er að um 22 starfsmenn séu þar í fullri vinnu, flestir sýrlenskir ríkisborgarar.
Blaðamenn Guardian voru sjálfir vitni að vopnaflutningum yfir landamæri Tyrklands og Sýrlands og lýsa því í grein í blaðinu. Þeir segja að fimm menn, allir klæddir hefðbundnum arabískum klæðnaði líkt og tíðkast í ríkjum við Persaflóa, hafi komið að lögreglustöð í landamærabænum Altima í Sýrlandi. Þar hafi þeir fengið góðar móttökur frá fulltrúum Frelsishers Sýrlands og afhent þeim um 50 kassa af rifflum og skotfærum en einnig mikið af lyfjum.
Fulltrúar frelsishersins eru sagðir hafa borið augsýnilega virðingu fyrir þessum gestum frá Persaflóa sem einnig höfðu meðferðis mikið reiðufé.