Mikil fagnaðarlæti brutust út á Gaza-svæðinu í Palestínu þegar tilkynnt var um sigur Mohamed Morsi í forsetakosningunum í Egyptalandi. Þá sendu Hamas-samtökin frá sér tilkynningu þar sem segir að sigur Morsi sé sögulegur viðburður. Morsi er úr röðum stjórnmálaflokksins Bræðralag múslima.
Mahmud Zahar, sem er hátt settur innan Hamas, segir sigur Morsi skapa nýtt upphaf fyrir Egyptaland. Hann sagði sigurinn mikilvægan fyrir öryggi og samvinnu gegn óvininum en þar átti hann við Ísrael.
Hamas samtökin hafa sterk tengsl við Bræðralag múslima í Egyptalandi.
Mohamed Morsi bar sigur úr býtum gegn Ahmed Shafiq sem var forsætisráðherra Egyptalands í stjórnartíð Mubaraks fyrrverandi forseta. Morsi sigraði með 51,73% atkvæða.