Rússneskt flutningaskip, sem flytja átti Mi-25 herþyrlur til Sýrlands en þær höfðu verið í viðgerð í Rússlandi, kom til hafnar í Múrmansk í norðurhluta Rússlands í dag. Var skipið neytt til þess að snúa aftur til landsins eftir að lekið var í fjölmiðla hver tilgangurinn með ferðinni var.
Þegar fréttir bárust af farmi skipsins stöðvuðu bresk stjórnvöld ferð þess þegar það var um 80 kílómetra frá norðurströnd Skotlands. Breska tryggingafélagið Standard Club felldi síðan tryggingu skipsins úr gildi með þeim rökum að farmur þess bryti í bága við reglur félagsins. Samkvæmt frétt AFP varpaði skipið, Alaed, akkerum fyrir utan höfnina en hefur hins vegar enn ekki lagt að bryggju til þess að skipa farminum á land.
Haft er eftir ónafngreindum rússneskum embættismanni að skipið hygðist gera aðra tilraun til þess að komast með farminn til Sýrlands. Í þetta sinn undir rússneskum fána en í fyrra skiptið sigldi skipið undir hentifána.
Haft er eftir rússneskum stjórnvöldum að þyrlurnar hafi verið í viðgerð í Kaliningrad í Rússlandi samkvæmt samningi við sýrlensk stjórnvöld sem ekki væri hægt að rifta.