Tyrkland leitar til NATO

Frá höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Brussel.
Frá höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Brussel. mbl.is

Tyrkland hefur kallað eftir fundi hjá Atlantshafsbandalaginu (NATO) í samræmi við 4. grein sáttmála bandalagsins í kjölfar þess að Sýrlendingar skutu niður tyrkneska orrustuþotu síðastliðinn föstudag. NATO mun funda á þriðjudaginn og fjalla þar um málið. 

Eins og mbl.is hefur fjallað um sagði utanríkisráðherra Tyrklands, Ahmet Davutoglu, í morgun að tyrkneska F-4 þotan sem Sýrlendingar skutu niður hefði farið stutta stund inn í sýrlenska lofthelgi en hefði verið komin út fyrir hana og á alþjóðlegt svæði þegar hún var skotin niður. Engin viðvörun hefði verið gefin, en þotan var óvopnuð að sinna ratsjárprófunum.

Tyrkir hafa nú sem fyrr segir beðið NATO um fund skv. 4. grein Atlantshafssáttmálans sem kveður á um að aðilar að honum muni hafa samráð sín á milli, hvenær sem einhver þeirra „telur friðhelgi landsvæðis einhvers aðila, pólitísku sjálfstæði eða öryggi ógnað.“ Bandalagið hefur orðið við beiðninni, og hefur boðað til neyðarfundar á þriðjudaginn.

Spenna hefur aukist á svæðinu í kjölfar atviksins á föstudag. Bretar hafa varað Sýrlendinga við að þeir geti ekki hegðað sér eins og þeim sýnist án þess að það hafi afleiðingar. William Hague utanríkisráðherra Breta sagði að stjórnvöld í London væru tilbúin til þess að beita sér af fullum krafti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert