Noregur ætti að nema úr gildi bann við vændiskaupum, sagði yfirmaður félagsmála í Ósló eftir að ný skýrsla sýndi mikla aukningu ofbeldis gegn vændiskonum í borginni. Þetta kemur fram í frétt thelocal.no um málið.
Anniken Hauglie, borgarfulltrúi fyrir Íhaldsflokkinn og yfirmaður félagsmála í Ósló, sagði að nema ætti lögin úr gildi, eftir að hin opinbera hjálparmiðstöð borgarinnar fyrir vændiskonur, Pro Sentret, sendi frá sér skýrslu á föstudaginn þar sem því var lýst hvernig aðstæður vændiskvenna hefðu versnað í höfuðborg Noregs. „Raunveruleikinn er sá að lögin hafa gert vændiskonum erfiðara fyrir,“ sagði Hauglie. „Það er skylda okkar að taka þessi viðbrögð til greina. Ég tel að vændiskaupabannið ætti að afnuma, og að þingið ætti í það minnsta að meta hver áhrif laganna hafa verið.“
Bann við vændiskaupum í Noregi var samþykkt árið 2009. Tilgangur laganna var sá að reyna að hamla vændi með því að stýra eftirspurninni. Hins vegar bendir skýrslan frá Pro Sentret til þess að lögin hafi í raun aukið líkurnar á því að vændiskonur séu beittar ofbeldi af viðskiptavinum sínum og ýtt starfseminni lengra neðanjarðar. Þá virðist sem vændiskonur séu síður líklegar til þess að leita sér hjálpar eftir gildistöku laganna, þar sem þeim finnist sem þær sjálfar séu einnig taldar vera glæpamenn, segir í skýrslunni, sem byggðist á viðtölum við vændiskonur sem tekin voru í janúar-mars á þessu ári. Þær sögðu að lögin hefðu fælt frá „traustari kúnna“, en vandræðagemlingar og ofbeldismenn létu sér fátt um finnast. Niðurstöðurnar nú sýndu að 59 prósent vændiskvenna hefðu verið beittar ofbeldi síðustu þrjú árin. Til samanburðar voru um 52 prósent vændiskvenna sem sögðu hið sama í skýrslu árið 2008.