Einmana-George dauður

Galapagos-skjaldbakan Einmana-George er gengin á vit feðra sinna en talið er að hún hafi verið 100 ára. Einmana-George hlaut viðurnefnið vegna þess að hann var eina eftirlifandi Galapagos-skjaldbakan af sinni undirtegund (Chelonoidis nigra abingdoni).

Skjaldbökurnar geta orðið allt að 200 ára og því verður krufning framkvæmd til að ákvarða dánarorsök Einmana-George. Hann eignaðist engin afkvæmi, þrátt fyrir að vísindamenn hafi áratugum saman reynt að koma honum saman við kvenkynsskjaldbökur af öðrum undirtegundum, og var hann því lengi þekktur sem sjaldgæfasta skepna í heimi.

Einmana-George var uppgötvaður á Galapagoseyjunni Pinta árið 1972 en þá var talið að undirtegundin væri þegar útdauð. Hann varð ein þekktasta skjaldbakan á Galapagoseyjum en þær heimsækja um 180 þúsund ferðamenn ár hvert.

Einmana-George.
Einmana-George. RODRIGO BUENDIA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert