Hrinti börnum af svölum 15. hæðar

Tveir drengir létust við fall af svölum á 15. hæð …
Tveir drengir létust við fall af svölum á 15. hæð í úthverfi Moskvu, en talið er að móðir þeirra hafi verið að verki. REUTERS TV

Rússnesk móðir er grunuð um að hafa hrint tveimur börnum sínum af svölum á 15. hæð fjölbýlishúss í Dolgoprudny hverfinu í Moskvu. Konan var yfirheyrð fyrr í dag og hefur gæsluvarðhald yfir henni verið framlengt.

Konan, Galina Ryabkova, bjó á 8. hæð hússins ásamt tveimur sonum sínum, fjögurra og sjö ára. Seint í gærkvöldi leiddi hún syni sína upp á 15. hæð hússins, að sögn rannsóknarlögreglunnar í Moskvu.

„Því næst ýtti hún drengjunum fram af svölunum. Þeir létust af áverkum sem þeir hlutu við fallið,“ segir í fréttatilkynningu frá rannsóknarlögreglunni.

Samkvæmt því sem fréttavefurinn AFP greinir frá var konan handtekin stuttu eftir atvikið á sunnudagskvöldið. Hún verður látin undirgangast geðrannsókn á næstu dögum. 

„Í yfirheyrslum kom fram að Ryabkova hefði fengið sig fullsadda af börnum sínum og ákveðið að losa sig við þau,“ segir í tilkynningu lögreglunnar. Foreldrarnir stunduðu heimakennslu og gengu drengirnir því ekki í skóla. 

Móðirin gaf enn fremur upp að hún hefði ætlað sér að skilja við eiginmann sinn á næstu dögum. Hún hafði gert tilraun til sjálfsvígs áður en þau gengu í hjónaband.

Harmleikurinn hefur valdið þjóðarsorg í Rússlandi og kveikt spurningar um gæði barnaverndareftirlits þar í landi, en það hefur löngum legið undir ámæli fyrir vanrækslu.

Samkvæmt fréttum AFP er eiginmaður Ryabkovu í djúpu áfalli, en hann hefur læst sig inni og neitar að svara spurningum lögreglumanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert