Mótmæla með flamenkódansi

Sprækar húsmæður mótmæltu lánaveitingum til spænskra banka með því að …
Sprækar húsmæður mótmæltu lánaveitingum til spænskra banka með því að standa fyrir danssýningu.

Flokkur flamenkódansara ruddist inn í banka í spænsku borginni Sevilla um helgina og stóð fyrir 20 mínútna flamenkódanssýningu í mótmælaskyni við stefnu þarlendra banka gagnvart skuldavanda landsins um þessar mundir.

Uppátækið var liður í hrinu mótmæla sem eldri borgarar standa fyrir í bankaútibúum víða um landið, en mótmælendurnir leita óvenjulegra leiða til að koma málstað sínum á framfæri. Meðal annars klæddi 50 manna hópur sig í fangabúninga og mótmælti í banka í Galisíu.

Á meðan á mótmælunum stóð kyrjuðu þátttakendur mótmælaslagorð á borð við „okkur hrjáir ekki skortur á peningum heldur offramboð á þjófum“.

Í Barcelona og Madríd standa samtök mótmælenda reglulega fyrir uppákomum af þessum toga, og hafa þeir víða mótmælt íklæddir neongulum endurskinsvestum með skilti. Á þau eru rituð fordæmingar á kostnaðarsamri neyðaraðstoð sem spænskir bankar fengu þann 9. júní síðastliðinn og nemur um 100 milljörðum evra.

Vaxandi óánægja ríkir meðal Spánverja gagnvart hinu háa láni til banka sem stunduðu umfangsmikla lánastarfsemi á uppgangstímum á Spáni á sama tíma og víðtækur niðurskurður á sér stað í menntamálum og heilbrigðisþjónustu í landinu.

Flest hinna skapandi mótmæla hafa átt sér stað í Bankia, sem er meðal stærstu banka á Spáni, en ríkið tók yfir starfsemi bankans í maí síðastliðnum. Yfirtakan var sú kostnaðarsamasta í sögu Spánar, hún kostaði um 23,5 milljarða evra.

Stuttu síðar skáru spænsk stjórnvöld niður 45 milljarða evra í kostnaðaráætlun sinni, en niðurskurðurinn bitnaði harkalega á heilbrigðis- og menntakerfi auk þess sem skattar hafa hækkað umtalsvert.

Hér má sjá flamenkómómælin á myndbandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert