Áreita konu sem var neydd í fóstureyðingu

Eiginmaður kínversku konunnar sem var nýverið neydd í fóstureyðingu, komin sjö mánuði á leið, er horfinn að sögn ættingja. Hann segir jafnframt að fjölskyldan sé áreitt á hverjum degi.

Mál Feng Jianmei vakti mikla athygli víða um heim fyrr í mánuðinum en kínversk stjórnvöld neyddu hana í fóstureyðingu vegna þess að hún greiddi ekki sekt fyrir brjóta lög sem kveða á um að hjón í þéttbýli megi einungis eignast eitt barn. Aftur á móti mega hjón á landsbyggðinni eignast tvö börn, sé það fyrsta stúlka.

Nú segir ættingi að ekkert hafi spurst til eiginmanns Feng, Den Jiyuan, síðan á sunnudag. „Í síðasta sinn sem ég sá hann þá var hann með okkur öllum í fjölskyldunni og hann sagði að einhver maður vildi tala við sig, þannig að hann fór. Við höfum ekki séð hann síðan og við náum ekki sambandi við farsímann hans.“

Ættinginn, sem ekki vill koma fram undir nafni, segir enga aðstoð að fá hjá lögreglunni og yfirvöldum í Zhenping. Þá segir hann að síðan á sunnudag hafi fjöldi fólks áreitt fjölskylduna. „Á sunnudagskvöld ákváðum við að fara heim af spítalanum og fjöldi fólks hafði safnast saman fyrir utan heimilið okkar. Það hengdi stóra borða á brú og hrópaði að við værum svikara. Nú erum við elt, hvert sem við förum.“

Fjölskylda Feng hefur rætt við erlenda fjölmiðla og telur ættinginn að mótmælin megi rekja til þessara viðtala. Óljóst væri hverjir mótmælendurnir væru en á netinu væri því haldið fram að stjórnvöld hefðu ráðið þá til að hrella fjölskylduna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert