Fjármálaráðherrar Frakklands, Þýskalands, Spánar og Ítalíu munu hittast á fundi í París í dag en síðar í vikunni munu leiðtogar Evrópusambandsríkjanna ræða saman í Brussel um vanda evruríkjanna.
Fjármálaráðherra Frakklands, Pierre Moscovic, staðfesti í dag að starfsbróðir hans í Þýskalandi, Wolfgang Schaeuble, og á Spáni, Luis de Guindos, myndu koma til Parísar í dag og annaðhvort forsætisráðherra Ítalíu, Mario Monti, sem einnig er starfandi fjármálaráðherra, eða aðstoðarráðherra fjármála, Vittorio Grilli.
Yfirmaður efnahagsmála hjá framkvæmdastjórn ESB, Olli Rehn, mun einnig taka þátt í viðræðunum í dag. Er fundurinn í dag framhald viðræðna sömu ríkja á föstudag í Róm. Þar kom fram að þörf er á 130 milljörðum evra til að styðja við evrusvæðið.
Á morgun ætla þau François Hollande, forseti Frakklands, og kanslari Þýskalands, Angela Merkel, að hittast á undirbúningsfundi fyrir ráðstefnuna í Brussel.