Tveir þriðju Bandaríkjamanna trúa að Obama sé betur til þess fallinn að kljást við geimveruinnrás en mótframbjóðandi hans, Mitt Romney.
Könnun sem sjónvarpsstöð National Geographic birti fyrr í dag leiddi þetta í ljós, en könnunin náði til 1.114 einstaklinga úr öllum ríkjum Bandaríkjanna og var framkvæmd í tengslum við heimildaþáttaröð sem tekin verður til sýningar á stöðinni á föstudag.
36% aðspurðra sögðust vera viss um tilvist fljúgandi furðuhluta. 11% sögðust þess viss að þau hefðu séð einn slíkan og 20% sögðust þekkja einstakling sem hefði orðið vitni að yfirnáttúrulegum fyrirbærum.
Forsetakosningarnar í Bandaríkjunum fara fram í nóvember næstkomandi og sögðu 65% þátttakenda í könnuninni að Obama væri líklegri til að bregðast fljótt og vel við innrás geimvera. Konur og yngri Bandaríkjamenn voru líklegri til að svara á þá vegu en karlmenn og þátttakendur eldri en 65 ára.