Fyrrverandi aðstoðarkona Adams Claytons, bassaleikara írsku hljómsveitarinnar U2, var í dag sakfelld fyrir 2,8 milljóna evra fjárdrátt.
Aðstoðarkonan, Carol Hawkins, dró sér peninga frá Clayton til að fjármagna lífsstíl sinn.
Um er að ræða 181 ávísun á fjögurra ára tímabili, en Hawkins hélt því fram að Clayton hefði gefið heimild fyrir eyðslunni. Peningunum var meðal annars eytt í utanlandsferðir, kaup á 22 hreinræktuðum hrossum, nýjan bíl og háskólanámskeið fyrir börn hennar.
Clayton segist hins vegar ekkert hafa vitað um útgáfu ávísananna og hann hafi einungis gefið Hawkins aðgang að bankareikningi sínum til að borga reikninga tengda höfðingjasetri hans í Dublin.
Hawkins starfaði fyrir Clayton í 17 ár, en upp komst um fjárdráttinn árið 2008.
Dómarar voru einróma í úrskurði sínum eftir að hafa ráðið ráðum sínum í rúmlega fimm klukkustundir. Dómarinn, Partick McCartan, sleppti hinni 48 ára gömlu Hawkins úr haldi gegn tryggingu, þangað til refsing verður ákveðin hinn 6. júlí.
Dómarinn sagði í ávarpi sínu: „Sönnunargögnin í þessu máli voru bæði augljós og áreiðanleg. Enginn gæti með rökstuddum hætti mótmælt niðurstöðunni.“
Frá ræstingastörfum í bókhald
Hawkins, sem er tveggja barna móðir, neitar ásökununum, en engum vörnum var haldið uppi meðan á réttarhöldunum stóð. Hún horfði fram fyrir sig og hvíldi höfuð í höndum á meðan uppkvaðning dómsins fór fram.
Í ávarpi kviðdóms kom fram að Hawkins hefði áunnið algjört traust Claytons á þeim 17 árum sem hún hefði unnið fyrir hann og hefði brugðist því trausti.
Svikin komust upp þegar Hawkins játaði árið 2008 að hafa bókað flug að andvirði 13 þúsund evrur, rúmlega tvær milljónir íslenskra króna, fyrir sig til að heimsækja börn sín í Bandaríkjunum og London.
Rannsókn leiddi síðar í ljós að þúsundum evra hefði verið eytt í frí á framandi staði og í hönnunarverslunum í New York. Hawkins keypti einnig hrossin 22 fyrir rúmlega 400.000 evrur, eða um 63 milljónir íslenskra króna. Einnig keypti hún Volkswagen Golf-bifreið fyrir son sinn Joe og borgaði námskeið í tísku- og kvikmyndafræðum fyrir börnin sín tvö.
Hawkins var upphaflega ráðin til ræstingastarfa fyrir Hawkins árið 1992 og eiginmaður hennar síðar meir sem bílstjóri og matreiðslumaður í hlutastarfi. Starf Hawkins þróaðist úr þrifum í að sjá um bókhald Claytons.
Bassaleikaranum var svo annt um velferð Hawkins að hann greiddi fyrir hana sálfræðimeðferð eftir að brotin komust upp, þar sem hún sagðist vera í sjálfsmorðshugleiðingum.