Vilja að Noregur verði lýðveldi

Haraldur Noregskonungur.
Haraldur Noregskonungur. AP

Tveir þingmenn Sósíalíska vinstriflokksins í Noregi hafa kallað eftir því að stjórnarskrá landsins verði breytt þannig að landið yrði að lýðveldi með kjörnum þjóðhöfðingja. Haraldur konungur myndi ef tillögurnar næðu fram að ganga fá umþóttunartíma til ársins 2014. Þetta kemur fram í frétt thelocal.no um málið. 

Snorre Valen, annar þingmannanna sagði að það ætti ekki að vera mögulegt að erfa völd og stöður, og að það væri kominn tími til þess að breyta landinu úr konungsríki í lýðveldi. Þetta mun vera í tólfta sinn sem Sósíalíski vinstriflokkurinn leggur þetta til. 

Valen og kollegi hans, Hallgeir Langeland, vonast til þess að aðrir þingmenn muni taka undir tillögu þeirra og vísa málinu í þjóðaratkvæði. Yrðu niðurstöður hennar á þann veg að kjósendur vildu lýðveldi, að þá taldi Valen að hægt yrði að láta valdaskiptin eiga sér stað árið 2014, en þá verða 200 ár liðin frá því að Norðmenn settu sér fyrst stjórnarskrá á Eiðsvöllum. Það yrði hins vegar undir þinginu komið hvaða völd norski forsetinn myndi hafa, og hvað kjörtímabil hans yrði langt.

Það er þó talið ólíklegt að af þessu verði. Skoðanakannanir benda til að norska konungdæmið njóti stuðnings um 60-70% norsku þjóðarinnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert