Utanríkisráðherra Bretlands, William Hague segir að stjórnvöld landsins ættu að reyna að semja upp á nýtt um samband sitt við Evrópusambandið áður en blásið verður til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.
Ráðherrann sá sig knúinn til að tjá sig um málið eftir að David Cameron lét nýlega í ljós að hann væri ekki mótfallinn þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandsaðild landsins.
„Við viljum betra samband við Evrópu,“ sagði Hague í samtali við BBC sjónvarpsstöðina.
„Of mikil íhlutun, of mikið skrifræði og of margar ákvarðanir eru teknar á grundvelli Evrópusambandsaðildarinnar. Því viljum við breyta,“ bætti hann við.
„Rétti tímapunkturinn til að taka ákvörðun um þjóðaratkvæðagreiðslu er þegar við vitum hvernig Evrópa mun tækla evruvandann á komandi mánuðum og árum og þegar okkur er orðið ljóst hvort við getum bætt sambandið við hin evruríkin,“ sagði Hague enn fremur.
Hague sagði að kjósi Evrópusambandið aukið samstarf aðildarríkjanna sem leið út úr kreppu evrusvæðisins yrði það þung lóð á vogarskálar fylgjenda þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi þátttöku Bretlands í Evrópusambandinu.
„Ef þróunin verður á þessa leið og okkur verður ljóst hvort yfirleitt sé mögulegt að bæta samband Bretlands við Evrópu, þá, og þá aðeins, verður tímabært að taka ákvörðun um þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir Hague.
Breytingar á aðildarákvæðum
David Cameron er undir miklum þrýstingi frá andstæðingum Evrópusambandsins meðal flokksbræðra sinna um að draga völd frá Evrópusambandinu aftur til breska þingsins. Frjálslyndir demókratar innan þingsins eru aftur á móti fylgjandi áframhaldandi samstarfi við Evrópusambandið.
Cameron skrifaði umdeilda grein í The Sunday Telegraph þar sem fram kom að hann myndi styðja þjóðaratkvæðagreiðslu um endurskilgreiningu á aðild Bretlands að Evrópusambandinu.
„Fyrir mér eru hugtökin „Evrópa“ og „þjóðaratkvæðagreiðsla“ fyllilega samrýmanleg,“ sagði í grein Camerons. „En aðeins þegar tímabært er orðið að þau fari saman.“
Cameron sagðist enn fremur vera fylgjandi ólíkri, sveigjanlegri og léttbærari stöðu Bretlands innan Evrópusambandsins.
Hann sagðist ekki vera fylgjandi inni/úti-fyrirkomulagi á kosningunum, en að hann myndi styðja þjóðaratkvæðagreiðslu um grunnbreytingar á aðild Bretlands að Evrópusambandinu.
„Úrsögn úr sambandinu væri ekki okkur í hag. Samt sem áður er ekki hægt að neita þeirri staðreynd að breska þjóðin er ekki ánægð með stöðu mála, og ég er þar á meðal,“sagði Cameron í grein sinni. „Minn vilji, og að mínu mati vilji meirihluta þjóðarinnar, er að breytingar verði gerðar á ákvæðum aðildar okkar.“
Skoðanakönnun á vegum tímaritsins Times í síðasta mánuði leiddi í ljós að helmingur bresku þjóðarinnar vildi hafa áhrif á eðli sambands Englands og stjórnar Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu.“