Júní var einn þurrasti mánuður sem um getur á Íslandi, en Bretar hafa hins vegar upplifað blautasta júnímánuð síðan skipulagðar mælingar hófust árið 1910.
Eins og fram kom í frétt á mbl.is í dag var júní með eindæmum þurr á Íslandi. Úrkoma í Stykkishólmi var t.d. aðeins 0,6 mm. Úrkoma í Bretlandi var hins vegar 145,3 mm. Í Wales var úrkoman 205 mm.
Apríl var einnig blautasti aprílmánuður í Bretlandi frá því að mælingar hófust. Maí var í öðru sæti yfir úrkomumestu maímánuði síðan mælingar hófust. Þessir þrír mánuðir eru samtals þeir blautustu síðan mælingar hófust.