Starfsmenn háskólasjúkrahússins á Skáni í Svíþjóð misstu fyrirbura í gólfið á fæðingardeild sjúkrahússins, sem er í Malmö, í gær. Fram kemur í sænskum fjölmiðlum að mikil mannekla hafi verið á sjúkrahúsinu og álagið mikið þegar þetta gerðist.
Dagblaðið Sydsvenskan segir að starfsfólk sjúkrahússins hafi verið að búa barnið, sem er lítill drengur sem fæddist 10 vikum fyrir tímann, undir röntgenmyndatöku þegar hann féll skyndilega á gólfið.
„Þau lyftu drengnum og einhvern veginn misstu þau hann á gólfið. Ég veit ekki hvort hann rann úr höndum þeirra eða hvort hann féll af rúminu. En hann féll á gólfið og öskraði,“ segir Elisabeth Olhager, sem er yfirmaður fæðingardeildarinnar, í samtali við blaðið.
Olhager segir að foreldrunum hafi eðlilega verið mjög brugðið og að þau hafi verið algjörlega miður sín. Hún bætir því við að sömu sögu sé að segja um starfsfólkið sem varð vitni að atburðinum.
Svo virðist sem litli drengurinn hafi sloppið óskaddaður eftir fallið. Hann verður hins vegar undir nánu eftirliti næstu daga, m.a. til að tryggja það að hann hafi ekki hlotið höfuðkúpubrot.
Olhager segir að sjúkrahúsið líti málið alvarlegum augum og það verði rannsakað.
Mikið álag var á fæðingardeildinni þegar slysið varð, en deildin var undirmönnuð í gær. Olhager vill ekki vera með neinar getgátur hvort það hafi haft áhrif á það að drengurinn féll í gólfið.
Nýverið gagnrýndu sænsk heilbrigðisyfirvöld fæðingardeildina harðlega, m.a. kom fram að hreinlæti væri ábótavant og gerðar voru athugasemdir við vinnubrögð starfsmanna.