Pakistönsk stjórnvöld ætla að opna birgðaleiðar fyrir hersveitir Atlantshafsbandalagsins (NATO) á nýjan leik eftir að Bandaríkjastjórn baðst afsökunar á því að hafa orðið 24 pakistönskum hermönnum að bana í nóvember.
Bandarísk stjórnvöld greina frá þessu að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.
„Við hörmum það mannfall sem varð í röðum pakistanska hersins,“ sagði Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
BBC segir að ríkisstjórn Pakistans hafi enn ekki tjáð sig um yfirlýsingu Bandaríkjanna.
Birgðaleiðirnar skipta NATO gríðarlega miklu máli, en bandalagið býr sig nú undir að flytja allt herlið frá Afganistan fyrir árslok 2014.
Deila Bandaríkjanna og Pakistana hefur skaðað samskipti ríkjanna. Hún hófst í nóvember sl. þegar Bandaríkjaher gerði loftárás við landamæri Afganistans að Pakistan með þeim afleiðingum að 24 pakistanskir hermenn létu lífið.