Bjargaði mannslífi en var rekinn úr vinnunni

Frá Flórída. Mynd úr safni.
Frá Flórída. Mynd úr safni. AFP

Ungum strandverði í Flórída í Bandaríkjunum var sagt upp störfum eftir að hafa bjargað manni frá drukknun. Ástæða brottrekstrarins var sú að hann bjargaði manninum við strandhluta sem hann átti ekki að hafa eftirlit með.

Fram kemur í bandarískum fjölmiðlum, að hinn 21 árs gamli Tomas Lopez hafi verið við störf á Hallandale-ströndinni, sem er rétt norðan við Miami, sl. mánudag þegar honum var gert viðvart um mann í nauð á svæði sem nýtur ekki eftirlits strandvarða.

„Þetta var langt hlaup, en þarna var einhver sem þurfti á minni hjálp að halda. Ég ætlaði ekki að fara segja nei,“ segir Lopez í samtali við dagblaðið South Florida Sun-Sentinel og sjónvarpsstöðina WFOR.

Lopez kom manninum til bjargar sem var í framhaldinu fluttur á slysadeild. Hann liggur nú á gjörgæsludeild sjúkrahússins.

Þegar Lopez tilkynnti slysið var hann hann rekinn fyrir að hafa farið út fyrir sitt svæði.

„Það voru engin leiðindi þegar þau sögðu þetta við mig. Viðbrögð þeirra voru meira í þá veru að „því miður, en reglur eru reglur“,“ segir hann og bætir við að hann hafi átt erfitt með að trúa þessu.

„Vegna mála sem tengjast skaðabótaskyldu má ekki yfirgefa svæðið sem nýtur verndar,“ sagði yfirmaður fyrirtækisins sem útvegar strandverði á Hallandale-ströndinni, sem er vinsæll áfangastaður ferðamanna.

„Þetta var hans ákvörðun. Hann þekkti reglur fyrirtækisins og gerði það sem hann hélt að hann þyrfti að gera,“ bætti yfirmaðurinn við.

Lopez, sem er nú atvinnulaus, segir að hann hefði ávallt brugðist eins við. „Það var siðferðilega rétt að gera þetta,“ segir Lopez.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert