Suðurkóresk stjórnvöld íhuga að hefja hvalveiðar í vísindaskyni. Þetta kom fram á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins sem fram fer í Panama. Fulltrúar S-Kóreu sögðust ætla að leggja fram áætlun að hvalveiðum en óska ekki eftir samþykki annarra ríkja.
Fulltrúar frá Ástralíu, Nýja-Sjálandi og öðrum ríkjum sem eru á móti hvalveiðum gagnrýna ákvörðun S-Kóreumanna harðlega.
Park Jeaong-Seok, fulltrúi S-Kóreu á fundinum, segir að áætlunin verði lögð fram í anda trausts, gegnsæis og í góðri trú. „Okkur er hins vegar ekki skylt að greina ykkur frá þessu fyrirfram,“ bætti hann við.
Þá segir hann að S-Kórea geti ekki samþykkt það sjónarmið að hvorki eigi að veiða né drepa hvali.
„Þetta er ekki vettvangur siðferðilegrar umræðu, heldur er þetta vettvangur lagalegrar umræðu,“ sagði Park, spurður út í þá gagnrýni sem beinist að ákvörðun stjórnvalda í S-Kóreu. „Þess konar siðferðispredikanir skipta hvorki máli né eru viðeigandi á þessum vettvangi,“ segir hann.
Ekki liggur fyrir hversu marga hvali S-Kóreumenn ætli sér að veiða. Ekki heldur hvar eða hvenær þessar veiðar í vísindaskyni eiga að fara fram.
Hins vegar er talið að þeir muni veiða hrefnur í Japanshafi.