Vill sjá Bandaríki Evrópu verða til

Günther Oettinger, orkumálastjóri Evrópusambandsins.
Günther Oettinger, orkumálastjóri Evrópusambandsins. Wikipedia/Jacques Grießmayer

„Við verðum að þróa Evrópusambandið yfir í að verða pólitískt samband, Bandaríki Evrópu,“ segir Günther Oettinger, sem fer með orkumál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, í samtali við þýska dagblaðið Die Welt.

Oettinger var spurður að því hvort hann væri sammála tæpum helmingi þýskra þátttakenda í nýlegri skoðanakönnun sem gerð var fyrir dagblaðið þar sem spurt var að því hvort fólk vildi sjá Bandaríki Evrópu verða til.

Sagðist Oettinger fyllilega styðja þá skoðun og sagði ennfremur að það væri uppörvandi í þeim efnahagserfiðleikum sem nú geisuðu að svo stór hluti þýskra kjósenda væru sömu skoðunar og hann í þessum efnum.

Þess má geta að nýverið sagði Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, að sama skapi í samtali við þýska tímaritið Spiegel að hann væri hlynntur því meðal annars að breyta framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í eiginlega ríkisstjórn og kjósa í almennri kosningu forseta sambandsins.

Schäuble neitaði því þó að þar með yrði Evrópusambandinu breytt í sambandsríki sem væri sambærilegt við Bandaríkin eða Þýskaland heldur yrði um að ræða sérstaka útfærslu.

Frétt Die Welt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka