Sameinuðu þjóðirnar vilja að lagður verði sérstakur skattur á milljarðamæringa heimsins í þeim tilgangi að safna rúmlega 400 milljörðum dala (um 51.000 milljörðum kr.) árlega til að aðstoða fátækustu ríki heims.
Þetta er á meðal aðgerða sem lagt er til í skýrslu SÞ. Þar er einnig lagt til að losun koltvísýrings verði sérstaklega skattlögð og að skattur verði lagður á gjaldeyrisviðskipti og fjármálagjörninga. Í skýrslunni eru auðugustu ríki heims sökuð um að hafa svikið loforð sín um að grípa til frekari ráðstafana til að aðstoða fátæka.
Í skýrslunni, sem er gefin út árlega og efnahagsleg og félagsleg þróun er skoðuð á heimsvísu, kemur fram að það sé afar mikilvægt að menn finni nýjar leiðir til að aðstoða fátækustu íbúa heims þar sem ekki hafi verið staðið við loforð um aukinn fjárstuðning.
Í skýrslunni er talið að 1.226 einstaklingar í heiminum eigi a.m.k. einn milljarð dala (um 127 milljarða kr.).
Talið er að 425 milljarðamæringar búi í Bandaríkjunum, 315 í Austur-Asíu, 310 í Evrópu, 90 í öðrum löndum í Norður- og Suður-Ameríku og 86 í Afríku og í Mið-Austurlöndum.
Samanlagður auður þeirra er metinn á 4,6 billjónir dala. Í skýrslunni kemur fram að 1% skattur myndi safna rúmlega 46 milljörðum dala.
„Myndi þetta skaða þá?“ er spurt í skýrslunni.
„„Meðalmilljarðamæringurinn“ myndi eiga 3,7 milljarða dali eftir að hafa greitt skattinn. Ef viðkomandi milljarðamæringur myndi eyða 1.000 dölum á hverjum einasta degi þá myndi það taka hann eða hana um 10.000 ár til að eyða öllum auðæfum sínum,“ segir ennfremur í skýrslunni.