Angela Merkel, kanslari Þýskalands, nýtur mikilla vinsælda meðal þýsku þjóðarinnar ef marka má nýja skoðanakönnun sem birt var í dag en 58 prósent Þjóðverja segjast vera ánægðir með aðgerðir kanslarans í baráttunni við kreppuna á evrusvæðinu og í efnahagsmálum innanlands.
Könnunin var framkvæmd af Infratest Dimap fyrir ARD-sjónvarpsstöðina.
Einnig kemur fram að 66 prósent kjósenda eru almennt ánægðir með störf Merkel og hefur stuðningur við hana ekki mælst jafnmikill frá því í desember 2009, tveimur mánuðum eftir að hún var endurkjörin.
Athygli vekur að 85 prósent aðspurðra segjast óttast evruvandann og eiga von á versnandi horfum framundan. Aldrei fyrr hafa svo margir sagst óttast vandamál innan evrusvæðisins í könnun á vegum ARD.