Stjórnvöld í Noregi settu nú í kvöld neyðarlög sem stöðva verkfall starfsmanna í olíuiðnaði í Noregi.
Verkamenn sem eru í olíuvinnslu á sjó hafa verið í verkfalli í hálfan mánuð til þess að krefjast bættra lífeyrisréttinda.
Stjórnendur fyrirtækja í olíuframleiðslu hótuðu að loka öllum fyrirtækjum á miðnætti í von um að aðgerðirnar myndu setja þrýsting á stjórnvöld um að setja á neyðarlög til þess að fá verkamenn aftur til vinnu.
Þrjú stærstu verkalýðsfélög í Noregi stóðu að baki verkfalli olíuverkamanna sem vilja full lífeyrisréttindi frá 62 ára aldri í stað 65 ára eins og nú er. Eftirlaunaaldur starfsmanna á almennum vinnumarkaði er 67 ár.
Noregur er fimmti stærsti olíuútflytjandi í heiminum. Þegar hefur framleiðslan dregist saman um 13% og gasframleiðsla um 4% síðan verkföll hófust. Áætlað tap norska olíuiðnaðarins af aðgerðunum hingað til er um 300 milljónir norskra króna.