4,5 milljónir starfa gætu tapast

Mikið atvinnuleysi er víða í Evrópu.
Mikið atvinnuleysi er víða í Evrópu. JOHN KOLESIDIS

Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) segir í nýrri skýrslu að hætta sé á að 4,5 milljónir starfa á evrusvæðinu tapist á næstu fjórum árum ef haldið verði áfram að skera niður í ríkisútgjöldum eins og gert hafi verið.

ILO segir að gangi þetta eftir fari atvinnuleysi í evrulöndunum 17 úr 18 milljónum manna í 22 milljónir. Stofnunin hvetur til þess að breytt verði um stefnu og í stað niðurskurðar einbeiti stjórnvöld sér að því að skapa störf.

ILO segir að það séu ekki bara evrulöndin sem eigi í erfiðleikum, því erfiðleikarnir nái til alls heimsins. Í skýrslunni segir að hætti sé á að störfum fækki á öllu evrusvæðinu, ekki bara í þeim löndum sem nú eigi í mestum erfiðleikum. Varað er sérstaklega við því að atvinnuhorfur eigi eftir að versna hjá ungu fólki.

ILO bendir á að mörg fyrirtæki hafi ákveðið að fresta uppsögnum vegna þess að þau hafi haft trú á að ástandið myndi fljótlega batna. Ef það gengi ekki eftir væri líklegt að uppsögnum fjölgaði verulega.

ILO mælir með því að það verði sett sem skilyrði fyrir stuðningi við fjármálastofnanir að þær láni til smáfyrirtækja. Einnig vill stofnunin að hluthafar bankanna verði látnir bera skaða af tapi þeirra. Þá mælir stofnunin með að öllu ungu fólki sem er án vinnu verði boðið upp á starfsþjálfun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert