Tugum innflytjenda af Suður-Amerískum uppruna hefur verið neitað um atvinnu- og landvistarleyfi í Bandaríkjunum frá árinu 2006 vegna húðflúra sem prýða líkama þeirra.
Þetta á einkum við um húðflúr sem bandarísk yfirvöld tengja glæpaklíkum í heimalandi umsækjenda og gildir þá einu hvort viðkomandi er á sakaskrá eða ei.
Hector Villalobos er innflytjandi frá Mexíkó. Hann fékk ekki Græna kortið, sem veitir heimild til atvinnu í Bandaríkjunum, vegna húðflúra sem hann hefur um líkamann. Hann segist engin tengsl hafa við glæpaklíkur en telur gengjahúðflúrin sérlega snotur. „Bara vegna þess að ég er listaunnandi reyna þeir að útmála mig sem vonda manneskju,“ segir Villalobos.
Fullyrt er í frétt Wall street journal um málið að hin „hættulegu“ húðflúr prýði ekki eingöngu meðlimi glæpagengja, heldur séu þau einnig vinsæl meðal almennra borgara. Nokkur málaferli hafa verið háð vegna þessa. Lögfræðingar húðflúruðu innflytjendanna halda því fram að verið sé tengja menn við glæpi án þess að nein rök liggi fyrir því.
Hjá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hafa fengist þau svör að umsóknum sé ekki eingöngu hafnað vegna húðflúranna. Fleira komi til.
Frá þessu er sagt í Wall street journal.