Lögreglan þurfti að hrista 12 ára kófdrukkinn dreng til meðvitundar en pilturinn hafði sofnað á bekk í almenningsgarði. Hann er dæmi um þá miklu unglingadrykkju sem fyrirfinnst í Tékklandi. Pilturinn var einn margra sem lögreglan þurfti að aðstoða á síðasta degi skólaársins í júní en börnin höfðu fagnað próflokum að hætti fullorðinna.
„Í fyrra voru tilfellin fleiri en í ár er ástandið þó verra því börnin er miklu drukknari en áður,“ segir Jana Prikrylova, talsmaður lögreglunnar í höfuðborginni Prag.
Hver sem kærir sig um getur séð að drukkin börn og unglingar eru oft á almannafæri. Þessi mikla unglingadrykkja var svo staðfest í könnun sem gerð var meðal evrópskra skóla og gefin var út í maí. Fimmtán og sextán ára unglingar í Tékklandi drekka mest af sínum jafnöldrum í álfunni. Könnunin leiddi í ljós að hvorki meira né minna en 93% unglinga, stúlkna jafnt sem drengja, sögðust hafa drukkið áfengi á síðustu tólf mánuðum og um 80% sögðust hafa neytt áfengis síðustu 30 daga.
Sérfræðingar vilja kenna auðveldu aðgengi að áfengi um og miklu umburðarlyndi gagnvart áfengisdrykkju í landi sem státar sig af mörgum vinsælum bjórtegundum. Það eru ekki aðeins unglingarnir sem drekka því fullorðnir Tékkar drekka næstmest af öllum Evrópubúum.
„Þetta er stórt vandamál og ég held að við höfum sofnað á verðinum,“ segir Jindrich Voboril, ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í forvarnamálum.
„Rannsóknir hafa sýnt að áfengisneyslan er að aukast, þeir sem drekka eru sífellt yngri og þeir drekka nú meira af sterkum drykkjum en áður.“
Hér áður fyrr var hefð fyrir því að feður sendu syni sína á næstu krá til að ná í bjór til að drekka með sunnudagssteikinni. Í þá daga þótti ekkert tiltökumál að deila bjórnum með börnunum. Tékknesk ungmenni drekka á krám, í almenningsgörðum, inni á heimilum, á dansleikjum og í sumarbúðunum. Sum neyta jafnvel áfengis í sumarfríinu með foreldrunum, samkvæmt könnunum.
Næstum allir fimmtán ára unglingar í tékknesku iðnaðarborginni Ostrava hafa bragðað áfengi, flestir vodka, bjór og léttvín. Einn drengur fullyrðir að amma hans gefi honum bjór eftir matinn til að hjálpa til við meltinguna.
Barþjónar láta sem þeir sjái ekki að það eru börn sem þeir veita bjór yfir barborðið.
„Ég varð fyrst verulega fullur þegar ég var sextán ára, en á þeim aldri fannst mér allt í lagi að byrja að drekka. Núna sér maður börn allt niður í tólf ára gömul, stelpur með mikinn farða, liggjandi undir borðum á dansleikjum,“ segir hinn 18 ára Matej.
Fólki finnst sjálfsagt mál að kaupa áfengi handa krökkum í næstu matvörubúð og verslunareigendur láta sig ekki miklu varða á hvaða aldri viðskiptavinirnir eru. Þá segir Matej að sumir kaupi áfengi á netinu.
Engar opinberar tölur eru til um tíðni áfengissýki meðal Tékka en á síðasta ári voru 27 þúsund manns lagðir inn á sjúkrahús vegna misnotkunar á áfengi, þar af um 500 börn og unglingar.