Fjórir Bretar hafa verið fundnir sekur um að hafa þvingað fjölda manna í þrælahald í Bedfordshire. Einhverjir þrælanna voru í haldi Connors-fjölskyldunnar á annan áratug.
Tommy Senior, James John, Patrick og Josie Connors voru dæmd sek í gær fyrir að hafa misnotað mennina í fjárhagslegum tilgangi í hjólhýsabyggð í nágrenni Leighton Buzzard í Bedfordshire, samkvæmt frétt Sky. Þau sem fengu þyngstan dóm, hjónin James John og Josie Connors, voru dæmd í ellefu ára og fjögurra ára fangelsi.
Connors fjölskyldan tók heimilislausa, eiturlyfjafíkla og alkóhólista af götunni og neyddi í þrælahald. Voru mennirnir látnir vinna launalaust sex daga vikunnar, allt að nítján tíma á dag, fengu nánast ekkert að borða og fengu einungis kalt vatn til að þvo sér upp úr.
Þrælahaldararnir voru handteknir eftir að lögregla frelsaði þrælana í september í fyrra. Alls voru þrælarnir 23 talsins. Einn þeirra hafði verið í haldi kvalara sinna í fimmtán ár. Við yfirheyrslur sögðu þrælarnir frá því hvernig þeim hefði verið misþyrmt andlega sem líkamlega.
Talið er að Connors-fjölskyldan hafi haft milljónir punda upp úr starfsemi sinni en fjölskyldan rak malbikunarþjónustu. Auk þess að þræla við malbikun þurftu þrælarnir að þrífa heimili kvalara sinna og garða.
Voru með brotin bein, skyrbjúg og fleiri kvilla
Einhverjum þeirra hafði verið heitið því að þeir fengju launaða vinnu og húsaskjól en eins og áður sagði voru þeir allir heimilislausir áður. Við komuna í hjólhýsabyggðina voru höfuð þeirra rökuð og öll skilríki tekin af þeim. Þegar þeim var bjargað voru margir þeirra ökklabrotnir, rifbeinsbrotnir og handleggsbrotnir. Jafnframt þjáðust þeir af skyrbjúg, voru með kláðamaur og þjáðust einnig af vannæringu. Á sama tíma og þrælarnir bjuggu við skelfilegar aðstæður bjuggu þrælahaldararnir við munað.
Við réttarhöldin kom fram að aðstæður þeirra voru eiginlega verri en orð fá lýst. Til að mynda fengu einhverjir einungis að baða sig einu sinni í mánuði og voru alltaf látnir vera í sömu fötunum. Ískalt var í vistarverum þeirra og fengu þeir fimm mínútna matarhlé á dag. Var þeim hótað lífláti ef þeir myndu reyna að að flýja og ef þeir kvörtuðu voru þeir beittir líkamlegu ofbeldi.