Sextán ára ísraelskur piltur hefur verið dæmdur í átta ára fangelsi fyrir að myrða 24 ára gamlan Palestínumann í febrúar á síðasta ári.
Í febrúar árið 2011 var Hossam al-Ruweidi myrtur í borginni Jerúsalem en fjórir ungir gyðingar réðust á hann. Í gær var einn árásarmannanna, sem var sextán ára er árásin átti sér stað, dæmdur fyrir manndráp við unglingadómsstól í Jerúsalem.
Við réttarhöldin kom fram að félagarnir fjórir hefðu verið að drekka áfengi langt fram á nótt. Ruweidi varð á vegi þeirra en hann var þá að tala við félaga sinn á arabísku. Einn fjórmenninganna hóf að hrópa að þeim ókvæðisorð og berja á þeim báðum. Félagar hans tóku svo allir þátt í árásinni.
Unglingurinn sem nú hefur verið dæmdur skar Ruweidi í andlitið. Allir fjórir réðust þeir á mennina tvo. Ruweidi missti að lokum meðvitund og lést á sjúkrahúsi skömmu síðar en dauða hans má rekja til skurðsáranna á andlitinu.
Réttarhöld standa enn yfir tveimur árásarmönnum til viðbótar.