Enn loga skógareldar á Tenerife á Kanaríeyjum og áætlað er að þeir nái nú yfir um 1.800 hektara svæði. Eldarnir kviknuðu í gær og hafa breiðst hratt út. Þeir eru nú um hálfan kílómetra frá þjóðgarðinum Parque Nacional del Teide og virðast stefna í átt að Tacande-svæðinu sem er býsna þéttbýlt.
Litlum sögum fer af tjóni en samkvæmt frétt á vefsíðunni Canaries News hlaut slökkviliðsmaður brunasár og tveir bílar hafa skemmst. Um eitt hundrað manns hefur verið gert að yfirgefa heimili sín.
Nokkur fjöldi Íslendinga er á svæðinu, en samkvæmt upplýsingum frá ferðaskrifstofunni Sumarferðum hafa eldarnir engin áhrif á dvöl þeirra að svo stöddu. Þar fengust þær upplýsingar að fararstjórar á staðnum teldu enga hættu á ferðum og að allir farþegar á vegum Sumarferða væru öruggir.
Afar heitt er á Tenerife og nálægum slóðum, eða hátt í 40°C.
Frétt mbl.is: Skógareldar á Tenerife