Lögreglan í New Jersey í Bandaríkjunum hefur gefið út myndband sem sýnir hrikalegan árekstur sem varð er bíl var ekið yfir gatnamót á móti rauðu ljósi. Á myndbandinu sést að bíl er ekið á fullri ferð yfir gatnamótin og í veg fyrir bíl með þeim afleiðingum að sá fyrrnefndi kastast á loft og á ljósastaur.
Ótrúlegt þykir að sá eini sem slasaðist í árekstrinum var ökumaður bílsins sem ók yfir á rauðu ljósi. Hann er grunaður um ölvun við akstur.
Lögreglan hefur birt myndbandið, öðrum ökumönnum til varnaðar. Margir ökumenn eru á móti því að eftirlitsmyndavélar séu notaðar til að sekta fólk sem fer yfir á rauðu ljósi. Lögreglan vonar að með því að birta myndbandið sannist notagildi vélanna, segir í frétt á BBC.