Vafi um verndun hvítra hákarla

Hvítir hákarlar eru ekki frýnilegir.
Hvítir hákarlar eru ekki frýnilegir.

Yfirvöld í Vestur-Ástralíu hafa kallað eftir því að friðun hvítra hákarla verði endurskoðuð. Fimm dauðsföll á svæðinu hafa verið rakin til þessara risa hafsins á undanförnum tíu mánuðum sem verður að teljast óvenjumikið.

Nú síðast lést brimbrettakappinn Ben Linden þegar hvítur hákarl beit hann í tvennt á laugardag. Björgunarsveitir leita enn líkamsleifa mannsins en leit að skepnunni bar ekki árangur og hefur verið hætt. Hafa strendur á umræddu svæði verið lokaðar síðan árásin átti sér stað.

Sjávarútvegsráðherra Vestur-Ástralíu, Norman Moore, segir árásirnar mikið áhyggjuefni fyrir samfélagið, sem m.a. byggir afkomu sína á ferðamönnum. Ætlar hann að berjast fyrir því að látið verði af banni við veiðum hákarlanna og þær leyfðar í takmörkuðu magni. Hvetur hann ríkisstjórn Ástralíu til að gera slíkt hið sama.

Vesturströnd Ástralíu er að mati vísindamanna einn hættulegasti staður í heimi m.t.t. árása hákarla. Hafa umhverfisverndarsinnar bent á að ekki er við hákarlana að sakast heldur auknar vinsældir jaðarsports á borð við brimbrettaiðkun og fleira, sem laðar fleira fólk í sjóinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert