Allir 1.800 íbúar bæjarins Vilaflor á Tenerife hafa verið fluttir á brott af yfirvöldum sökum nálægðar bæjarins við skógareldana sem nú geisa á eyjunni.
Vilaflor er rétt sunnan við Teide-þjóðgarðinn sem er vinsæll áningarstaður ferðamanna á eyjunni. Fyrirskipuðu spænsk stjórnvöld brottfutning fólksins úr bænum í dag þegar eldtungurnar frá nálægum svæðum voru farnar að teygja sig í ystu hús bæjarins og inn í þjóðgarðinn.
Víðar hefur fólki verið gert að yfirgefa hús sín á eyjunni þar sem hundruð slökkviliðsmanna berjast við að hefta frekari útbreiðslu eldanna og koma í veg fyrir frekara tjón.
Eldar hafa einnig geisað á nærliggjandi eyju við Tenerife, La Palma. Að sögn spænskra yfirvalda hefur hins vegar tekist að ná stjórn á eldunum þar og því viðbúið að yfir 150 manns sem höfðu yfirgefið heimili sín þar, geti snúið aftur til síns heima á næstu dögum.