Heilbrigðisyfirvöld í Chile hafa staðfest að músarskott hafi fundist í hamborgara á McDonalds-stað í bænum Temuco í júní síðastliðnum. Virðist skottinu hafa verið komið fyrir af ásetningi.
Viðskiptavinurinn sem uppgötvaði þennan óvænta kaupauka kvartaði strax til heilbrigðisyfirvalda sem hafa nú staðfest að um músarskott hafi í raun og veru verið að ræða. Hafði skottið grillast með hamborgaranum.
Rannsókn heilbrigðisyfirvalda leiddi í ljós að músarskottinu hafði vísvitandi verið komið fyrir í hamborgaranum segir í frétt AFP um málið.
Það þarf vart að taka það fram að umræddum veitingastað hefur verið lokað og verið er að ákveða sekt rekstraraðilanna.