Fengu engin vopn vegna mistaka

Varnarmálaráðuneytið í Pentagon þarf að tilkynna þinginu um alla vopnasölu …
Varnarmálaráðuneytið í Pentagon þarf að tilkynna þinginu um alla vopnasölu Bandaríkjanna úr landi.

Finnar hugðust festa kaupa á nokkru magni eldflauga frá bandarískum vopnaframleiðanda, en vegna mistaka í gerð umsóknar um kaupin til bandaríska þingsins, verður nokkur frestur á afhendingu vopnanna.

Talsmaður finnska varnarmálaráðuneytisins sagði í samtali við fréttasíðuna hbl.fi í dag að umsóknin hefði nú verið lagfærð og send að nýju til Bandaríkjaþings.

Samkvæmt fréttinni kveða bandarísk lög á um að varnarmálaráðuneytið þar í landi þurfi að tilkynna þinginu um alla vopnasölu úr landi. Þingið hefur síðan 30 daga til að koma með athugasemdir við söluna. Yfirleitt eru viðskiptin samþykkt, en þegar Finnar höfðu enn ekki fengið svar óttuðust þeir að þingið hefði ekki samþykkt vopnaviðskiptin.

Um er að ræða 70 eldflaugar af gerðinni M39 Block 1A sem draga 200-300 kílómetra vegalengd. Fyrir þær munu yfirvöld í Finnlandi greiða 100 milljónir evra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert