Pólskum karlmanni, sem búsettur hefur verið í Danmörku um hríð, verður vísað úr landi fyrir ofbeldi gegn fyrrverandi eiginkonu sinni og syni og mun ekki fá að stíga fæti á danska grundu næstu 12 árin.
Maðurinn situr nú á bak við lás og slá vegna heimilisofbeldis, en er hann losnar eftir ár mun lögregla fylgja honum á hafnarbakkann og upp í ferju sem á að flytja hann til síns heimalands.
Hann hlaut 15 mánaða dóm fyrir að hafa ráðist á konuna á heimili hennar í Ishøj, skammt frá Kaupmannahöfn. Samkvæmt frétt á vefsíðu danska dagblaðsins Berlingske Tiderne misþyrmdi hann henni á ýmsan hátt og kastaði eldhúshnífi á eftir henni er hún slapp úr klóm hans.
Maðurinn hafði margsinnis beitt konuna ofbeldi og einnig meitt 17 ára gamlan son þeirra, meðal annars hafði hann brennimerkt hann með sígarettu.
Maðurinn var einnig dæmdur fyrir búðarhnupl og fyrir árás á lögreglumann. Hann neitar öllum sökum og hefur áfrýjað dómnum.