Kína og Rússland beittu í dag neitunarvaldi gegn ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem hefði heimilað refsiaðgerðir gegn stjórnvöldum í Sýrlandi. Hundruð almennra borgara flúðu undan hersveitum stjórnarinnar í hverfum Damaskus í dag.
Mannréttindavaktir bentu jafnframt á að notkun hersins á skriðdrekum í fyrsta skipti benti til þess að aukinn kraftur væri að færast í átökin í höfuðborginni.
Ríkisfjölmiðlar í landinu birtu jafnframt myndir í dag af Assad forseta með nýjum varnarmálaráðherra landsins, Fahd al-Freij.
Rússland og Kína hafa nú í þrígang beitt neitunarvaldi til þess að koma í veg fyrir ályktanir öryggisráðsins gegn Sýrlandi. Ellefu meðlimir ráðsins studdu tillöguna, tveir sátu hjá.
„Bretland er harmi slegið í ljósi neitunar Rússa og Kínverja,“ sagði sendiherra Breta, Mark Lyall Grant, í kjölfar þess að atkvæðin voru greidd. Bretar höfðu forystu um að semja texta ályktunarinnar.
Í ályktuninni var kveðið á um gripið yrði til friðsamlegra refsiaðgerða ef Assad drægi ekki þungvopnað herlið sitt frá borgum Sýrlands innan tíu daga.