Sýrlenska ríkisstjórnin er komin að fótum fram. Þetta segir Abdel Basset Sayda, formaður Sýrlenska þjóðarráðsins, sem eru helstu samtök stjórnarandstæðinga í landinu. Hann segir Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna óskilvirka stofnun.
Sayda óttast að beiting Rússa og Kínverja á neitunarvaldi sínu á fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í dag muni hafa víðtækar skaðvænlegar afleiðingar. Þar var kosið um ályktun sem hefði heimilað refsiaðgerðir gegn sýrlenskum stjórnvöldum.
Sayda segir fyrirkomulagið í Öryggisráðinu og Sameinuðu þjóðunum úrelt og óskilvirkt. „Þarna er unnið samkvæmt reglum frá tímum heimsstyrjaldarinnar síðari og þær endurspegla ekki það ástand sem við erum að fást við í dag. Við getum ekki látið stjórn landsins halda áfram að murka lífið úr landsmönnum.“
Hefði ályktun Öryggisráðsins verið samþykkt hefði verið hægt að beita sýrlensk stjórnvöld refsiaðgerðum og þannig hafa áhrif á framgang mála í landinu. Sayda segir að ein ástæða þess að Rússar hafi beitt neitunarvaldinu sé sú að þeir sjái stjórnarher Sýrlands fyrir vopnum.
„Þetta getur ekki haldið svona áfram, að öðrum kosti fer ástandið úr böndunum og afleiðingarnar verða skelfilegar, bæði fyrir Sýrland og allan heimshlutann,“ sagði Sayda.