Bandaríska alríkislögreglan, FBI, aðstoðar búlgörsk stjórnvöld við að bera kennsl á mann sem sprengdi sjálfsmorðssprengju í Búlgaríu í vikunni. Sex manns létust í sprengingunni. Lík fimm Ísraela hafa verið flutt til Tel Aviv.
Meðal þess sem lögreglan skoðar eru myndbandsupptökur úr eftirlitsmyndavélum. Er verið að reyna að rekja slóð árásarmannsins, daginn sem hann sprengdi sprengjuna.
Árásinni var beint gegn ísraelskum ferðamönnum og hafa ísraelsk stjórnvöld sagt Hezbollah skæruliða bera ábyrgðina. Ferðamennirnir fimm voru í rútu og lést bílstjóri hennar einnig. Þá særðust um 30 manns sem voru á staðnum þar sem sprengjan sprakk.
Á myndbandi úr öryggismyndavél flugvallar sem lögreglan hefur birt, sést hvítur maður með sítt hár, hugsanlega með hárkollu og í dæmigerðum frístundarklæðnaði ganga um með ferðatösku. Lögreglan segir að tekin verði fingraför af líki árásarmannsins í þágu rannsóknarinnar.