Lögreglan í Denver í Bandaríkjunum segir að a.m.k. 14 liggi í valnum eftir að vopnaður maður hóf skothríð í kvikmyndahúsi í borginni. Um 50 hafa særst.
Sjónarvottar segja að grímuklæddur byssumaður hafi skotið á gesti sem voru á miðnætursýningu á nýjustu kvikmyndinni um Batman í Aurora. Einn kvikmyndahúsa gestur segir við CNN að maðurinn hafi læðst inn í salinn og hafið skothríð. Tilviljun ein hafi ráðið því hverjir urðu fyrir skotunum.
Þá herma fréttir að árásarmaðurinn hafi kastað reyksprenjgu á vettvangi. Að sögn lögreglu er einn maður í haldi. Fram kemur á vef BBC að fjölmargir sjúkrabílar séu á vettvangi.
Maðurinn sem er í haldi vegna málsins sagði lögreglu að hann geymdi sprengjuefni á heimili sínu. Var fjölbýlishús í norðurhluta Aurora rýmt í kjölfarið.
Tíu létust strax en fjórir létust af sárum sínum til viðbótar á sjúkrahúsi í morgun. Talsmaður sjúkrahússins segir við BBC að mörg fórnarlömb hafi komið til aðhlynningar.
Kvikmyndahúsið var þétt setið enda um frumsýningardag nýjustu Batman-myndarinnar að ræða.