Viðskiptavinir Ikea í Bretlandi geta nú keypt sér öl í matvöruverslun húsgagnarisans. Ekki þarf sexkant til þess að setja hann saman eða opna hann.
Samkvæmt frétt thelocal.se um málið er stefnt að því að bjórinn verði settur í dreifingu um allan heim í júlí og ágúst.
Ivana Flygar, talsmaður Ikea í Svíþjóð sagði að verslunin vildi að þær vörur sem matvöruverslun Ikea byði upp á endurspeglaði sænska matarmenningu. Ikea fór að selja matvöru árið 2006 og hefur þróað vöruframboð sitt æ síðan, þó þeir séu þekktastir fyrir sænsku kjötbollurnar sem eru þar á boðstólum.
Hún tók fram að Ikea vildi selja bjórinn alls staðar þar sem Ikea verslanir væru í heiminum. Ljóst er þó að sænskir viðskiptavinir húsgagnarisans munu verða fyrir vonbrigðum, þar sem áfengislöggjöfin þar í landi leyfir ekki að bjórinn verði seldur í verslunum Ikea þar. Verið væri þó að athuga þann möguleika að bjórinn verði seldur á veitingastöðum þeim sem fylgja verslununum.
Bjórinn er til bæði ljós og dökkur, og heitir „Ikea Öl Ljus lager“ og „Ikea Öl Mörk Lager.“ Þeir eru báðir 4,7% að styrkleika.