Sautján ára stúlka frá Kentucky í Bandaríkjunum varð svo miður sín er hún áttaði sig á að saksóknari hefði gert samning við tvo pilta sem beittu hana kynferðislofbeldi, að hún birti nöfn þeirra í Twitterfærslu. Hún á nú yfir höfði sér sekt fyrir að hafa sýnt réttinum óvirðingu.
AP-fréttastofan birtir frétt um málið og nafn stúlkunnar. Það gerir þessi virta fréttastofa ekki venjulega í málum sem þessum en stúlkan og foreldrar hennar vildu að nafnið kæmi fram til að vekja athygli á málinu.
Lögmenn piltanna hafa beðið dómarann að sekta stúlkuna og setja hana í varðhald fyrir óvirðingu við réttinn, en málið hafði verið tekið fyrir í unglingadómsstóli og samkvæmt ákvörðun dómarans átti ekki að fjalla um það opinberlega.
Savannah Dietrich segir í viðtali við AP að hún hafi orðið fyrir árás piltanna í ágúst 2011. Hún hafi verið meðvitundarlaus sökum áfengisdrykkju í partíi. Hún frétti nokkru síðar að piltarnir hefðu svívirt hana og myndum af ofbeldinu verið deilt á netinu.
„Mánuðum saman grét ég mig í svefn. Ég gat ekki látið sjá mig á almannafæri,“ segir hún í viðtalinu sem faðir hennar og lögmaður voru einnig viðstaddir. „Ég sat bara og hugsaði: Hverjir sáu myndirnar, hverjir vita þetta?“
Lögmaður stúlkunnar vill að meðferð dómsins á framhaldi málsins verði fyrir opnum tjöldum en lögmenn piltanna vilja að þinghaldið verði lokað.
Stúlkan gæti átt yfir höfði sér 180 daga í fangelsi og peningasekt fyrir að hafa sýnt réttinum óvirðingu.
Piltarnir játuðu fyrir dómi þann 26. júní síðastliðinn að hafa beitt stúlkuna kynferðisofbeldi. Stúlkan vissi hins vegar ekki að samið hefði verið um málið fyrr en rétt áður en það var tilkynnt.
Hún hefur ekki viljað segja hvaða refsingu piltarnir fengu en lýsir henni sem „smávægilegum skömmum“.
Dómarinn í málinu getur enn breytt niðurstöðunni. Hann á eftir að taka afstöðu til samningsins sem gerður var við piltana og getur fellt hann úr gildi eða breytt honum.
„Þeir sluppu en segja mér svo að ég megi ekki tjá mig um málið,“ segir Dietrich. Dómarinn vilji frekar vernda nauðgara en að ná fram réttlæti fyrir fórnarlömb í Louisville.
Dietrich segist hins vegar vilja svara fyrir sig. „Ef ég þarf að fara í fangelsi fyrir að verja réttindi mín, þá geri ég það.“