Fórnarlamba helfararinnar minnst í Varsjá

Einn brauðbiti var daglegur matarskammtur fólks í gyðingahverfinu í Varsjá …
Einn brauðbiti var daglegur matarskammtur fólks í gyðingahverfinu í Varsjá á seinni hluta stríðsárunna. WOJTEK RADWANSKI

Þess er minnst í Póllandi í dag að 70 ár eru liðin síðan Þjóðverjar hófu að flytja gyðinga úr gyðingahverfinu í Varsjá til útrýmingarbúðanna í Treblinka. Er talið að um 260.000 manns hafi týnt lífi í aðgerðunum. 

Dagskráin hófst á athöfn nálægt embættisbústað forseta Póllands í Varsjá. Opnuð var sýning á teikningum eftir fólk sem bjó í gyðingahverfinu á stríðsárunum. Teikningarnar sýna t.d. þýska hermenn safna saman fólki, mann með látna eiginkonu sína á hjólbörum og 10 ára dreng umkringdan vörðum. Þá var einnig til sýnis brauðbiti sem vó 140 grömm, en það var daglegur matarskammtur í gyðingahverfinu.

Gyðingar í Póllandi fóru einna verst út úr seinni heimsstyrjöld, en fyrir stríð voru þeir um 3,2 milljónir. Þeim var nær öllum útrýmt í helför nasista gegn gyðingum í stríðinu, en pólskir gyðingar voru um helmingurinn af þeim sex milljónum gyðinga sem létu lífið í útrýmingarbúðum nasista. Eftir að Þjóðverjar höfðu hertekið landið í lok árs 1939 hófu þeir að einangra gyðinga í sérstökum hverfum borgarinnar. Í gyðingahverfinu í Varsjá voru um hálf milljón manna þegar mest var. Um einn fimmti af þeim lést úr hungri og vosbúð.

Hinn 22. júlí 1942 hófust nasistar síðan handa við að tæma gyðingahverfið. Stóðu aðgerðir þeirra í þrjá mánuði og var mikill meirihluti íbúa hverfisins sendur til Treblinka. Megnið af þeim 60.000 manns sem eftir voru, voru síðan fluttir burt ári síðar í kjölfar þriggja vikna uppreisnar í hverfinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert