Meira en 19.000 manns hafa látist í mótmælum og átökum í Sýrlandi síðan í mars í fyrra. Að sögn mannréttindasamtaka eru flestir þeirra almennir borgarar. Víða eru harðir bardagar á milli stjórnarhersins og stjórnarandstæðinga og tekist er á um landamærastöðvar.
Talsmaður mannréttindasamtakanna Syrian Observatory for Human Rights, Rami Abdel Rahman, sagði í samtali við AFP-fréttastofuna að um væri að ræða 13.296 almenna borgara, 4861 stjórnarhermenn og 949 liðhlaupa úr hernum. Vopnaðir uppreisnarmenn eru taldir með almennum borgurum. Þetta eru einungis þau dauðsföll sem hafa verið staðfest, en líklegt er talið að mörg þúsund í viðbót hafi fallið í átökum.
„Þeir sem eru í fangelsi án réttarhalda eru ekki inni í þessari tölu,“ segir Rahman, en tala þeirra skiptir þúsundum. „Þeir mörg þúsund stjórnarhermenn sem hafa fallið eru heldur ekki taldir með, en yfirvöld hafa leynt dauða þeirra til að halda uppi baráttuvilja hersins.“
Barist um landamærastöðvar
Stjórnarher landsins réðst inn í Barzeh hverfi í höfuðborginni Damaskus í morgun og enn er barist í borginni Aleppo, en bardagar hafa nú staðið þar yfir síðan á föstudaginn. Í gær létust að minnsta kosti 164 í átökum í landinu, þar af 86 almennir borgarar. Þar af létust 27 almennir borgarar í borginni Homs, þar af tvær konur og sex börn.
Hart er nú barist um landamærastöðvar, en stjórnarandstæðingar náðu nú í morgunsárið landamærastöð við landamærin að Tyrklandi á sitt vald. Stjórnarherinn náði á ný valdi á landamærastöð í norðurhluta landsins, að landamærunum að Írak. Stjórnarandstæðingar hafa nú á sínu valdi eina af þremur helstu landamærastöðvunum að Írak.