James Holmes, 24 ára gamall Bandaríkjamaður sem grunaður er um að hafa skotið 12 manns til bana í kvikmyndahúsi í Bandaríkjunum á föstudag, var leiddur fyrir rétt í fyrsta skipti í dag.
Holmes var með appelsínugult hár og klæddur í fangabúning og virtist þreytulegur og fjarhuga við réttarhöldin í Centennial. Hann starði fjarrænn fram fyrir sig á meðan lögfræðingar ræddu um meðferð málsins við dómara. Hann var leiddur út úr réttarsalnum um tíu mínútum síðar.
Honum er gefið að sök að hafa skotið 12 til bana og sært 58 aðra í kvikmyndahúsi í Colorado-ríki í Bandaríkjunum þegar hann braut sér leið inn um neyðarútgang í sal þar sem verið var að sýna nýjustu myndina um Leðurblökumanninn.
Búist er við því að saksóknarar fari fram á dauðarefsingu yfir Holmes síðar í þessari viku en sérfræðingar hafa hins vegar bent á að aðeins í eitt skipti hafi maður verið tekinn af lífi í ríkinu síðan árið 1976.